mánudagur, 28. júlí 2008
La vita bella
Fórum til Húsavíkur í gær (lau) á Mærudaga og það var nú aldeilis ljúft. Hitinn um eða yfir 20 stig og það var notalegt að sitja í sólinni með einn kaldan á Bakkanum, en þar er nýtt veitingahús sem Skuld heitir. Við röltum um bryggjuna og bæinn og hittum ansi marga sem þurfti að spjalla við. "Ætliði ekki bara að flytja aftur austur?" Hitti líka marga gamla nemendur mína úr FSH sem sumir hverjir eru orðnir þrítugir eða og rúmlega það. Stútungskallar og kellingar með tvö börn og háskólanám að baki. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Borðuðum svo á Sölku, út á stétt og ekkert lát varð á blíðunni. Stemningin þarna var eins og einhvers staðar í útlöndum og væri bara óskandi að maður fengi að njóta fleiri svona daga hér á klakanum.
Dagurinn í dag var ekki síðri veðurfarslega, hitinn aftur um eða yfir 20 stig. Fórum í sund á Hrafnagili og svo auðvitað hið skylduga jólahús sem Helena er farin að kveinka sér undan, segist hata þetta jólahús, sérstaklega á sumrin. Nú, taka verður tillit til gelgjunnar sem farin er að krauma í henni af fullum þunga, þannig að við stoppuðum stutt og keyrðum svo því næst Eyjafjarðarhringinn. Síðan heim í Snægilið í sól og næsheit á svölunum með bók og kaffi.
Já, mikið er lífið ljúft þegar blessuð sólin skín, allt verður miklu betra, geðið og annað lyftist upp og manni þykir, á svona dögum, jafnvel örlítið vænt um Björn Bjarnason!! Best að hætta núna áður en ég fer að lýsa yfir ást minni á Davíð Oddssyni, Sigurði Kára og Bush og fleirum, það er stórhætta á því, enda veðurspáin með eindæmum hagstæð næstu daga.
föstudagur, 25. júlí 2008
Ólaf fyrir forseta - áfram!
Það er tímabært að ég spjalli örlítið um forseta vorn, herra Ólaf Ragnar Grímsson, sem guð varðveiti og geymi. Ég fagna því að hann ætli að sitja fjórða körtímabil sitt, enda hefur hann staðið sig afburða vel í þessu vandasama embætti. Ég er ekki með neina kaldhæðni hér, það er bara staðreynd sem mörgum andskotum hans svíður undan. Þess vegna er farið út í lágkúru eins og nú um daginn þegar Jón Magnússon, frjálslyndur rasisti, fann að því að forsetahjónin hefðu farið út að borða með kellingu að nafni Martha Stewart. Það væri bara alls ekki við hæfi. Hún er svona “rich bitch” þarna í Ameríku og hefur skrifað margar bækur og verið með sjónvarpsþætti sem fjalla um lífstíl, eitthvað sem kaninn elskar og reyndar fleiri. Hún veit ekki aura sinna tal og svo varð hún uppvís að skattasvindli fyrir nokkrum árum og hlaut dóm eins og vera ber. Nú vill svo til að Marta blessunin er vinkona Frú Grimsson-Mussajeff og við því er fjandakornið ekkert að gera. Þær vilja fara út að borða, vinkonurnar, og eru svo elskulegar að taka Óla með sem annars hefði bara verið einn að gaufa á Bessastöðum yfir “Everwood” eða einhverju.
Ólafur er bara orginal snillingur. Hann er eini maðurinn sem ég þekki sem er fyndinn, bæði án þess að ætla sér það eða hafa hugmynd um það. Röddin, fasið og stelling handanna, allt er þetta vel þekkt og maðurinn því himnasending fyrir eftirhermur á borð við Jóhannes Kristjánsson sem nær honum svo frábærlega að hann er eiginlega líkari Ólafi en Ólafur sjálfur! Hann flytur ræður við hvers kyns tilefni. Kvenfélagssamband Íslands fagnar 60 ára afmæli og Ólafur fjallar, blaðalaust auðvitað, um það hvernig frumherjarnir á sviði kvenfrelsis hafi með kjarki sínum og staðfestu búið í haginn fyrir konur í dag og hvað við stöndum í mikilli þakkarskuld við þær merku fósturlandsins freyjur og so videre. Búnaðarþing og Óli ræðir um gildi landbúnaðar, Slysavarnarfélag Íslands, Rauði krossinn, iðnrekendur og verslunarráðið, bara nefndu það, alls staðar kemur forsetinn og kann að segja nákvæmlega réttu orðin við hvert tilefni. Framhaldsskólinn á Húsavík fagnaði 20 ára afmæli sínu á síðasta ári og efnt var til fagnaðar á Hótel Húsavík. Ólafur náttúrulega mættur og hélt 20 mín. langa ræðu í það minnsta. Hann talaði blaðalaust, aldrei tafs, engin hikorð eins og eh, uh, hérna. Allan tímann horfði hann fram í salinn og framan í fólk. Þetta var í raun mjög sérstakt að upplifa þetta. Nú innihald ræðunnar var bara eins og vera ber við svona tímamót; gildi menntunar, þýðingu skólans fyrir byggðarlagið, kjarkur frumherjanna, tækifærin til sóknar á nýrri öld… Heyra mátti saumnál detta því hann náði augum og eyrum viðstaddra svo rækilega að ég hef aldrei séð annað eins.
Ég man líka eftir forsetaheimsókn einhvers staðar út á landi fyrir nokkrum árum og sjónvarpið náði viðtali við Ólaf. Þetta var svona skuð á Vestfjörðum þar sem allt var á leið til andskotans, flestir voru farnir og allt á hausnum og bara eymd og drungi yfir öllu. Aðspurður um það hvernig sér litist á plássið svaraði forseti vor því píreygur og með sannfæringarglotti að maður nánast trúði honum. Ólafur: “Það er merkilegt, í raun alveg sérstakt, hversu mikill kraftur er í fólki hér og ég hef tekið eftir því að unga fólkið hér á Skuðseyri er opið, lífsglatt og bjartsýnt á möguleika þess til að skapa sér framtíð með ýmis konar nýsköpun. Það sér tækifæri til sóknar og við sem stöndum í forystu í samfélaginu verðum að búa svo um hnútana og þessi mikli sköpunarkraftur sem býr í æsku þessa lands fái notið sín.” Þetta er nú ekki haft orðrétt eftir forseta vorum, en eitthvað í þessa veru samt.
Fréttamynd 21. aldarinnar er líka af Ólafi Ragnari Grímssyni. Hún birtist í Séð og heyrt (já viðurkenni það bara að ég las allavega það eintak!). Myndin var harmræn í meira lagi, Ólafur lá sem dauður væri einhvers staðar í óbyggðum með svona ljótan knapahjálm á hausnum handleggsbrotinn og Dorriett á hnjánum hlúði að honum með tár á hvarmi. Þau höfðu sem sagt brugðið sér í reiðtúr og undir Ólaf var sett ótemja sem gáði ekki að því hversu tiginn sá var sem í hnakknum sat. Ólafur féll af baki með þessum afleiðingum þótt ódrukkinn væri. Viðbúnaður var mikill, forsetinn vafinn inn í teppi og mátti sig ekki hræra meðan beðið var eftir þyrlunni. Þá fóru illar tungur að tala um “Séð og heyrt-væðingu forsetaembættisins” eins og það væri því eða Ólafi að kenna. Þetta er nú bara tíðarandinn því miður kannski, að elta fræga fólkið og þessir sneplar nærast á svona efni.
Stína, ef þú ert enn að lesa, þá held ég að nú sé vel við hæfi að leggja hönd á brjóst og hrópa: “Heill forseta vorum og fósturjörð. Húrra, húrra, húrraaaaah!”
mánudagur, 21. júlí 2008
Ísbjörn í Vaðlaheiði
Landhelgisgæslan fór í flug í dag að leita að ísbjörnum og það tveimur sem tilkynnt hafði verið um að væru á vappi einhvers staðar á Ströndum. Sú leit hefur ekki borið árangur. En, auðvitað eru menn eitthvað hvumsa yfir þessu því tveir ísbirnir hafa villst hingað á einu sumri og það telst nú heldur óvanalegt. Ekki vildi ég mæta slíku dýri, hvorki í Vaðalaheiðinni né annars staðar, nýstignu á land og sársvöngu eftir margra daga volk í sjónum. Sagt er að fáar skepnur séu jafn klókar og grimmar eins og ísbirnir.
Villtir birnir eiga ekkert sameiginlegt með Knúti í dýragarðinum í Berlín nema nafnið og útlitið. Ég las um það frétt að dýragarðslífið er búið að úrkynja ræfilinn svo mjög að honum er ekki treyst til að bjarga sér í náttúrunni. Hann er algjörlega háður manninum og er ófær um að para sig við birnu. Einn dýrafræðingur sagði að ásókn mannfólksins í hann alveg frá því að hann var lítill og krúttlegur húnn hefði bæði gert hann getulausan og geðbilaðan. Nú bíður Knútur bara eftir því að klukkan verði þrjú því þá kasta starfsmenn dýragarðsins selshræi fyrir framan hann og svona 50 kg. af fiski sem búið er að roð- og beinhreinsa.
Verð samt að geta þess hér í lokin að Palle Pedersen er "well and alive" og hefur heiðrað mig hér á þessu nýja bloggi. Hvernig í andskotanum komst hann á snoðir um það? Þetta er greinilega einhver nákominn ættingi!
föstudagur, 18. júlí 2008
Hestavísur
Þegar draumar mínir verða með villtasta móti
ég vakna og mér liggur við bana
Ég var að ríða um grænar sveitir og Sóti
sá meri og óðara fór upp á hana
Allah gefur aröbum úlfalda
og Búdda færir skáeygðum perlur
Jahve er gyðingum góður
en Guð vill ei gefa mér hross
mánudagur, 14. júlí 2008
Nikulásarmótið
Fór með Nikka á Nikulásarmótið í Ólafsfirði um helgina. Honum og Þórsurum gekk vel og þeir unnu reyndar í sínum flokki og fengu bikar og medalíu og minn maður nokkuð stoltur Þórsari fyrir vikið. Helgin var annars þrekraun hin mesta. Í einhverjum bjánaskap hafði ég boðist til að vera liðsstjóri yfir einu liða Þórs og að fenginni þeirri reynslu fullyrði ég að það var í eina og hinsta sinn sem ég nýt þeirrar upphefðar innan knattspyrnuheimsins. Þjálfararnir voru bara eins og fínir menn á hliðarlínunni og öskruðu eitthvað inn á völlinn og sáu um skiptingar, upphitun og lögðu upp strategíuna og svo fóru þeir bara að slappa af eftir leikina, en við liðsstjórar þurftum þá að taka við gaurunum og hafa ofan af fyrir þeim fram að næsta leik.
Það voru 10 strákar í hverju liði og við áttum að halda hópnum saman og búið var að biðja foreldra að vera ekkert að taka sína gutta úr liðinu. En Drottinn minn, það voru 700 börn á svæðinu á aldrinum sjö til tíu ára og aðstandendur og aðrir sennilega á bilinu þrjú til fjögur þúsund, enda týndust tveir til fjórir strákar úr liðinu mínu nokkuð reglulega alla helgina. Ég var með vatnsbrúsann tilbúinn á hliðarlínunni og svo vafði ég skiptimennina í teppi svo þeim kólnaði ekki á meðan, batt skóþvengi og fleira. Það leið oft langur tími á milli leikja og í eitt skiptið fórum við sund. Laugin var kjaftfull af öskrandi börnum og ég taldi tíu Þórsara ofan í laug en ekki nema níu upp úr! Á barmi taugaáfalls æddi ég inn aftur en sá ekki þann sem vantaði. Á meðan týndust tveir sem komnir voru upp úr, þeir æddu bara eitthvert út í mannmergðina. Allir fundust þó að lokum. En svona var þetta gjarnan, ég að telja og smala saman, reka á eftir og skamma; “má ekki segja að XXX sé ömó”.
Þórsararnir lögðu undir sig aðra hæð gamla barnaskólans og lyktin var eins og í illa hirtu hesthúsi, enda hafði rignt og menn og strákar því hundblautir og það var nú ekkert til að dempa svita-og táfýluna þarna. Ekki svaf ég mikið. Við vöknuðum kl. 06.30 og mér leið eins og ég hefði verið á einhverju stórskralli kvöldið áður, allur stirður og lurkum laminn, rámur og með hausverk, hnén voru að gefa sig og bakið orðið sárt eftir allar stöðurnar daginn áður. Við áttum fyrsta leik kl. 08.15 svo ekki annar leikur fyrr en eftir hádegi. Þannig að maður náði að telja nokkrum sinnum þennan morgun! En allt fór þetta vel og mikið var ég feginn þegar svo þessu lauk öllu um 17 á sunnudaginn. Sá lærdómur sem draga má af þessu er eftirfarandi: Þetta er nauðsynlegt og þakkarvert að foreldrar láti hafa sig út í þetta, en jafnframt alveg morgunljóst að þetta er ekki fyrir pabba sem komnir eru yfir 45! Að lokum má geta þess að við Þórsarar í 7. flokki C-1 unnum C-liða keppnina, spiluðum sex leiki, gerðum eitt jafntefli (við Þór C-2!) og unnum fimm leiki. Ekki er að efa að öflug liðsstjórn hafði sitt að segja í þessari velgengni.
fimmtudagur, 10. júlí 2008
Eplið og Eikin
Íranir virðast vera að vígbúast, enda vita þeir að helsta þrá Bush-stjórnarinnar er að fara í stríð við þá og ögranir og hótanir í þá veru eru nú búnar að standa yfir í tvö til þrjú ár. Eru menn að hissa á því að Íran hervæðist og að þeir vilji þróa kjarnorkuvopn? Mesta hernaðarveldi heims er að undirbúa stríð við þá og geta menn ætlast til þess að Íranir sitji hjá aðgerðarlausir? Al Kaídaliðum vex ásmegin, talibanarnir í Afganistan eru að ná sífellt stærra landsvæði undir sig, æ fleira fólk í Miðausturlöndum gengur öfgahyggjunni á hönd og stuðningur við brjálæðinga eins og bin Laden eykst bara. Eðlilega. Bandaríkjamenn vaða um þennan heimshluta á skítugum skónum og af sínum alkunna heimsveldishroka vilja deila og drottna þarna og verja hagsmuni sína með öllum sínum hernaðarmætti. Vegna stefnu Bush-stjórnarinnar er miklu ófriðvænlegra í heiminum nú en bara fyrir nokkrum árum. Versnandi samskipti við Rússland skrifast eingöngu á Bandaríkin. Nú ætla þeir að koma upp nýjum kjarnorkueldflaugastöðvum í Austur-Evrópu, í Tékklandi og Póllandi, þrátt fyrir hávær mótmæli Rússa sem líta á þetta sem beina ögrun við sig sem það er er auðvitað.
Ekki nema von að Osama kallinn kenni barnungum syni sínum á riffil, það eru sjálfsagt margir að þjálfa sig í því að halda á riffli og skjóta úr honum nú þegar Bandaríkin eru komin í fullan gang með að undirbúa langþráð stríð sitt við Íran.
mánudagur, 7. júlí 2008
Dyflinnarsamkomulagið
Gott að geta hengt sig í svona samkomulag til að fría sig allri ábyrgð á flóttamannsræfli sem þar að auki er biksvartur. Skítt með það að viðkomandi vann með íslenskum hjálparsamtökum að þróunarverkefnum í heimalandi sínu Keníu. Þar er lýðræðið lítt þróaðra en í Zimbawbe og eftir að hafa boðið sig fram í kosningum gegn stjórnarsinna og tapað var reynt að drepa hann fyrir ósvífnina og því aðeins einn kostur í stöðunni, að flýja land. Hingað hafði hann komið áður og datt þess vegna í hug að sækja um hæli hérna, enda þekkti hann orðið nokkra mörlanda sem kannski hafa sagt honum að hér væri allt svo gott, engin spilling, mildir stjórnarherrar, hreint loft, besta vatn í heimi og Íslendingar væru bara æðislegir, svo umburðarlyndir og víðsýnir heimsborgarar með einstaklega þroskaða borgaravitund og fleira svona bull. Því miður er ekkert beint flug frá Kenía til Íslands og þess vegna lenti hann á Ítalíu og kom hingað þaðan til allrar guðsblessunar fyrir helvítis rasistana hjá Útlendingastofnun. Þá kom Dyflinarsamkomulagið til skjalanna og því var hægt að handtaka manninn og rífa burt frá eiginkonu og nýfæddri dóttur og senda til Ítalíu, í það bananalýðveldi Berlusconis.
Farið var að reglum í þessu máli segir Sigurður Kári sem er voðalega hræddur við fordæmisgildið sem fælist í því að veita þessum manni hæli. Vill nú ekki einhver góðviljaður maður taka það þjóðþrifaverkefni að sér að rasskella þingmanninn fyrir þessi orð? Mannúð og mildi eiga ekki upp á pallborðið hjá stjórnvöldum í þessu máli, það gæfi ekki gott fordæmi. Ömurleg vinnubrögð Útlendingastofnunar birtast í því að fjalla ekki um mál mannsins þrátt fyrir beiðni þar um og reka hann síðan úr landi frá fjölskyldu sinni út í algera óvissu um það hvað Ítalir svo gera. Þeir gætu vísað honum til síns heima, í barbaríið þar og ef Paul Ramse verður svo drepinn þangað kominn vona ég bara að Sigurður Kári, forstjóri Útlendingastofnunar, Björn Bjarnason og fleiri sofi vært eftir sem áður, sennilega eru þeir of hrokafullir allir til að viðurkenna klúðrið, heimsku sína og mannvonsku.
Ljóst er að stjórnvöld eru að brjóta ýmsa mannréttindasáttmála í máli þessu eins og lögfræðingur þeirra hjóna benti á í Kastljósþætti í kvöld, m.a. Mannréttindayfirlýsingu S.þ. og Barnasáttmála S.þ. Einhvers staðar segir í lögum um flóttamenn að þá eigi ekki að senda til baka ef hætta er talin á að slíkt muni geta ógnað lífi viðkomandi og þá geta menn, ef þeir vilja, horft framhjá þeirri heimild sem Dyflinnarsamkomulagið veitir stjórnvöldum. En nú skilst mér að utanríkisráðuneytið sé að þrýsta á einhverja takka og best að sjá hverju það skilar. Það flæktist ekki fyrir okkur að veita Duranona ríkisborgararétt, enda kunni hann handbolta og var líklegur til að auka hróður okkar á alþjóðavettvangi, en hann hafði flúið pólitískt ófrelsi á Kúbu og var þó að ég held ekki í neinni lífshættu. Bobby Fischer fékk sömuleiðis hæli hér og þá var vísað í mannúðarástæður með ábúðarfullum hætti og ráðamenn voru þá ansi drjúgir með sig og fannst þeir sjálfir vera voða næs. Af hverju mátti það ekki núna?
sunnudagur, 6. júlí 2008
Í sól og sumaryl
Fjandans leikurinn var hundleiðinlegur og KA mönnum hefndist rækilega fyrir síðasta leik, en þá skoruðu þeir sigurmark á móti Þór í uppbótartíma. Það sama gerðist í dag, nema það var bara hitt liðið sem skoraði. Við hefðum bara átt að vera lengur fram í firði í blíðunni heldur en að húka yfir þessum leik. Ekkert er eins tilgangslaust peningaaustur eins og að fara á leik sem tapast og ég tala nú ekki um þegar kalt er í veðri. Leikirnir verða ekki fleiri hjá mér í sumar, búinn að sjá tvo og það er meira en nóg.
fimmtudagur, 3. júlí 2008
Góður dagur
Svo fór Nikulás á fótboltaæfingu og ég fékk mér kríu á meðan. Eftir hádegi var aðallega setið úti á svölum í blíðunni með kaffi, blöð og bók og reyndar einn ískaldan Carlsberg líka sem rann óvenju ljúflega niður í hitanum. Svo eftir kvöldmat var farið í Brynju og ís sleiktur og svolgraður á meðan við röltum um innbæinn í stafalogni og mollu. Að lokum fórum við í Byggðaveg og fengum kaffi og köku og ekki nóg með það, heldur fengum við Helena reiðhjól upp í hendurnar sem Halli kom með. Þetta voru hjól sem skilin höfðu verið eftir af eigendum sínum á stúdentagörðum og stóð til að henda. Ekkert var að þeim annað en loftlaus dekk og því er búið að bjarga. Þannig að nú fer maður að hjóla eins og brjálæðingur og sýnir bara puttann þegar farið verður framhjá glæpabúllunum sem selja bensín og olíu. "Já, eigiði bara ykkar helvítis bensín sjálfir!" En, þetta var góður dagur sem sagt.
miðvikudagur, 2. júlí 2008
Á Gaddstaðaflötum
Það erkihneyksli að leggja fleiri klukkutíma af dýrmætum dagskrártíma sjónvarpsins undir þetta landsmót hestakalla er sárara en að tárum taki. Kynbótasýningar á hryssum þar sem þeim er lýst á erótískan hátt, ef ekki beinlínis klámfenginn, ætti að banna innan við 18 og merkja þá þætti sérstaklega með rauðum lit á sjónvarpslógóinu. Þar er talað um gangmál (samfarir), að fylja merar, þokkafullar ungmerar, hnarrreistar með svo glæsilegan limaburð að Sammi másar af einskærri frygð. Þvílíkt högg að fá þetta í andlitið eftir fótboltaveisluna undanfarnar vikur, þvílík innrás í einkalíf mitt! Hestur heima í stofu á hverju kvöldi og fullir hestaperrakallar í stretsbuxum í ofanálag. Fyrir þetta þarf ég að greiða!
Sem betur fer fauk allt draslið til andskotans í fyrrinótt og sást til hestakalla á harðahlaupum eftir tjöldum sínum og búsi langt út í móa og vonandi hefur ekkert spurst til þess síðan. En afkomendur Orra frá Þúfu og Fáks frá Akureyri vonandi una glaðir við sína tuggu og ég óska þeim gæfu og gengis og megi þeir komast sem allra fyrst í sína heimahaga.