föstudagur, 28. nóvember 2008

Hannesar jafni

Halldór Blöndal stórskáld, fyrrum þingforseti og hvalskurðarmaður orti eftirfarandi ljóð og flutti í sextugsafmæli þess manns sem hann dýrkar og dáir hvað mest og mundi sennilega hengja sig upp á rasshárunum bæði sá góði maður hann um það. Aðra eins slefandi mærð hef ég sjaldan séð og hefði fullyrt að þarna væri um beitt háð að ræða ef ég vissi ekki betur. Ljóðið fjallar um Davíð Oddsson, afglapann og sækópatann í seðlabankanum.

Þjóðskörungur
leiddi þjóð sína
ódeigur
inn í árþúsund
nýrra vona,
nýrra hugsjóna.
Heill sé þér Davíð
Hannesar jafni

Afsakiði meðan ég æli! Syni sólarinnar má helst líkja við Hannes Hafstein, þann þjóðmæring sem fyrstur varð ráðherra Íslands, skáld og glæsimenni. Það er vel við hæfi, enda stendur Davíð í þeirri trú að hann sjálfur sé Hannes Hafstein endurborinn.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Farðu!

Hann er búinn að halda kjafti í fjórar vikur, en nú hefur hann talað. Ég hef aldrei á ævi minni upplifað annan eins hroka eins og í þessari ræðu hans á fundi Verslunarráðsins í fyrradag. Þar talaði maður sem var saklaus eins kaþólskur kórdrengur og kenndi öllum öðrum um. Skítlegt eðlið skein af honum í þessari viðbjóðslegu ræðu. Hann jós drullu yfir menn eins og honum hefur löngum verið tamt, menn sem hafa varið hann af blindri trúmennsku. Hann hraunaði yfir samstarfsmenn sína í Fjármálaeftirlitinu og segir að Seðalbankinn hljóti að vera aftastur í "rannsóknarþarfaröðinni". Hann varaði ríkisstjórnina við í feb. síðastliðnum eftir að hafa lesið skýrslu frá Bretum um ískyggilega stöðu bankanna, en gerði ekkert meir í málinu. Hann ber sem sagt enga ábyrgð á því að tryggja ekki gjaldeyrisforðann í tíma og hann ber heldur enga ábyrgð á verðbólgu og vaxtastigi landsins, enda þau mál í svo góðu horfi.

Svo gjörsamlega rúinn trausti inanlands sem utan stendur hann keikur og rífur kjaft. Í samræmi við karakter sinn og skítlegt eðli náði hann þó að læða að einum brandara sem fékk jakkafötin til að hlæja út í sal. Er hægt að ímynda sér smekklausara athæfi við þessar aðstæður? Nei, varla. Hann skildi ekki vitjunartíma sinn síðustu árin sem forsætisráðherra og hann botnar heldur ekkert í honum núna, enda lítil von til þess þegar menn ganga bókstaflega fyrir illgirni, valdasýki og hroka sem á sér ekki hliðstæðu í íslensku samfélagi

laugardagur, 15. nóvember 2008

Gospelsystur í stuði - með guði

Ég bý með roskinni konu og hef eftirfarandi því til sannindamerkis. Í fyrsta lagi er gömlufólkalykt af henni sbr. pistil um daginn. Það er ilmur sem virkar mjög "turn on" á mig, enda hef ég alltaf verið með smá fetish fyrir afgömlum og tannlausum kellingum sem geyma tanngarðinn sinn í vatnsglasi á náttborðinu við hliðina á Ábúendatali Eyjafjarðar. Frau Blucher er nú reyndar enn með sinn í sínum hvofti en ég bíð spenntur eftir því þegar sú stund rennur upp að hún biðji mig um að skola góminn fyrir sig, því fátt er nú meira örvandi áður en gengið er til rekkju og í eina sæng með spúsu sinni á síðkvöldum. Reyndar er það nú ekki alveg rétt því hún er orðin svo kvöldsvæf í seinni tíð, þannig að síðkvöldin eru horfin úr hennar lífi og eru bara minningar einar. Hún er farin að sofa í hnausþykkum ullarsokkum, enda fótköld orðin eins og velfullorðnu fólki er tamt.

Hún er í Gospelkór Akureyrar og syngur þar Gussa til dýrðar og dillar sér með Gospelsystrum sínum sem sjást hér á myndinni. Blucher er kát að sjá og sést þarna fremst til hægri. Best að nota tækifærið og auglýsa tónleika með kórnum á sunnudaginn eftir viku í Akureyrarkirkju. Ég neyðist held ég til að mæta og tek bara þátt í fjörinu, dilla mér og klappa í takt við tónlistina eins og vitfirringur. Reyni bara að standa þetta af mér, sýna æðruleysi.

Svo er hún farin að stunda bingó af sjúklegum áhuga. Ef hún er ekki með gospelsystrum, þá er hún annað hvort á bingókvöldi eða að föndra með skjólstæðingum sínum í Víðilundi. Mér skilst að ekki megi á milli sjá hvort henni eða gamlingunum finnist það skemmtilegra, að mála á kerti, eða búa til jólakort, vera í bútasaumi, útsaumi og allra handanna bróderingum, keramiki og postulíni og ég veit ekki hvað. Hún er farin að taka pláss frá gamla fólkinu í föndrinu.
Þetta hefur verið að ágerast síðustu árin. Ég setti spurningamerki við það þegar hún fór á þjóðbúninganámskeiðið um árið. Hún saumaði sér upphlut og er farin að ganga í honum á sunnudögum og heimtar að ég komi með sér í kirkju þannig klædd. Upphlutur virkar á mig svona svipað og tanngarður í vatnsglasi, en auðvitað er þetta bara mitt vandamál. Svona er maður orðinn skemmdur af nútímanum og illa úrkynjaður. Ha, nei, ég hef engar áhyggjur af þessum pistli, Frau Blucher les ekki bloggið mitt (sem betur fer!)

laugardagur, 8. nóvember 2008

Byggðavegur

Maður hefur verið í hálfgerðum "minningarrússibana" undanfarnar vikur í allri tiltektinni í Byggðavegi. Á stundum skrýtið og líka erfitt að henda öllu þessu dóti foreldra sinna, hlutir sem höfðu merkingu og sérstakt gildi fyrir þá og líka fyrir okkur þó með öðru móti sé. Mér finnst eins ég sé að kasta lífi ofan í ruslagám, maður bara bítur á jaxlinn og bælir tilfinningarnar niður. Og svo verður Byggðavegur seldur, það verður skrítið að sjá annað fólk tilheyra þessu húsi sem ég kalla enn "heima". Ég hef aldrei slitið þann naflastreng. "Heim í Byggðaveg". Í þessu húsi ólst ég upp og flutti ekki úr því endanlega fyrr en ég var að verða þrítugur. Minningarnar eru endalausar, þær hefur maður verið að rifja upp og við systkinin fjögur. Við höfum mikið hlegið og það hefur verið ótrúlega gaman að hræra í þessum sameiginlega minningapotti okkar því það er svo margt sem óvænt skýtur upp kollinum, enda hefur hvert okkar sína sýn á hlutina og svo er líka margt sem maður hreinlega vissi ekkert um. En á köflum hefur þetta líka tekið í og angurværðin hellist yfir mann og söknuður eftir liðnum tíma.

Í einni tiltektinni um daginn rakst ég á gömlu skautahúfuna mína sem mútta prjónaði á mig og ég hef ekki séð síðan í æsku. Hún er eins og ný og sér ekki á henni. Það þurfti heldur ekkert að pipra hana eins og vettlingana mína, en þá nagaði ég gjarnan í tætlur og mamma hafði ekki við að staga í þá og fann því upp á þessu snjallræði. Ég loga allur í kjaftinum bara við að rifja þessa sögu upp! En húfuna ætla ég að varðveita og setja upp, en mjög spari þó.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Oooooovænt!


Birgir Ármannsson er stoltur hægri maður með þverslaufu til skamms tíma. Um síðir benti einhver honum á að það væri hallærislegt. Hann lætur hvert þjóðþrifamálið til sína taka og er ákaflega líflegur þingmaður og meira að segja formaður Allsherjarnefndar. Birgi er frekar illa við, eins og eðlilegt má teljast, að stjórnmálaflokkar opni bókhald sitt og gefi upp hverjir það eru sem ausa peningum í þá, enda kemur það pöpulnum ekki rassgat við. Hann vill að sjálfsögðu ekki erlenda rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á gerspilltu fjármálakerfi okkar mörlanda og á kosningavöku bandaríska sendiráðsins á Grand hóteli í gær kaus hann Macain. Oooooóvænt!!!

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Kosningar í vor

Tek undir með Steingrími J. Kosningar verða að fara fram sem allra fyrst og í síðasta lagi á útmánuðum, mars, apríl. Hér hefur svo margt brugðist. Peningastefna Seðlabankans, sem ríkisstjórnin hlýtur að leggja blessun sína yfir þrátt fyrir margumtalað sjálfstæði hans, hefur beðið algert skipbrot. Stjórnvöld sváfu á verðinum, eftirlitsstofnanir brugðust osfrv. Það dugar ekki fyrir Samfylkinguna að þykjast ekki bera ábyrgð á Davíð, hann sé bara í Seðlabankanum vegna og fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ætla þannig að fría sig allri ábyrgð á hlutunum og líka til að hafa afsökun fyrir því að halda áfram í stjórninni.

Seðlabankinn er í tilvistarkreppu sem aldrei fyrr og er í raun einskis nýtur. Við erum reyndar ekki lengur sjálfstæð þjóð. Ríkisstjórnin og Gjaldeyrissjóðurinn ætla að leggja drápsklyfjar á þjóðina sem munu skerða lífskjör okkar mikið næstu ár og kannski áratugi. Hér verður meira atvinnuleysi en við höfum nokkru sinni kynnst áður (að kreppuárunum meðtöldum), þjóðartekjurnar dragast mikið saman, kaupmáttur rýrnar um 10 til 20% og verðbólgan fer í 30% segja hagfræðingar áður en vetur er úti.

Það er búið að taka völdin af okkur í efnahgaslífinu, við höfum ekki stjórn á þeim næstu árin, heldur áðurnefndur sjóður og nú er þegar búið að koma í framkvæmd einum af hvað, 19 liðum sem ríkisstjórninni er ætlað að fara eftir næstu misserin og árin, en það er hækkun stýrivaxtanna sem fróðir segja að muni keyra enn fleiri fyrirtæki í þrot og auka skuldir heimilanna ómælt. Ekki er á það bætandi, við erum nú þegar skuldugasta þjóð í heimi, hugsið ykkur! Stjórnvöld og tiltölulega fáir fjárglæframenn komu okkur út í þetta.

Þing hefur sannarlega verið rofið af minna tilefni en það sem nú blasir við okkur. Það væri fáránleg skrípamynd af lýðræðinu ef þjóðin fengi ekki að segja sitt álit á þessum málum öllum með kosningum í allra síðasta lagi í vor.