Það er engu logið upp á Davíð Oddsson, hvorki til lofs né lasts. Hann á það allt inni skuldlaust. Davíð svaraði bréfinu á þann eina hátt sem búast mátti við af honum; með klókindum og skætingi. Davíð er sterkasti pólitíkus sem Íslendingar hafa átt að Hriflu-Jónasi og Ólafi Thors meðtöldum. Enginn hefur átt jafn glæstan pólitískan feril og Davíð, svo einstakur var ferill hans, bæði í borginni og á Alþingi, að hann upplifði það aldrei að sitja í stjórnarandstöðu, hann var allan tímann leiðtogi og hann kann ekki annað en að vera sigurvegari og einvaldur.
Tök hans á flokknum voru (og eru?) slík að lýsa mætti þeim sem stalínskum að frátöldum "hreinsunum miklu". Davíð lét aldrei drepa neinn, en "bláu höndinni" beitti hann óspart á þá sárafáu sem voguðu sér að hafa aðrar skoðanir. Jón Magnússon, til skamms tíma frjálslyndur, veit ekki hvað hann er núna og Ólafur Magnússon fyrrv. borgarstjóri hafa báðir lýst því hvernig þeir voru settir út af sakramentinu í flokknum þegar þeir misstigu sig og viku út af flokkslínunni. Skoðanaskipti tíðkuðust heldur ekki árum saman í Sjálfstæðisflokknum, hann var bara til fyrir Davíð. Landsfundir voru bara ein hallelújasamkoma foringjanum til dýrðar og minntu á trúarsamkomur. Sjálfstæðisflokkurinnn var Davíð og Davíð var Sjálfstæðisflokkurinn. Og Sjálfstæðisflokkurinn átti Ísland. Nú er þetta farið að minna mig óþyrmilega á Joseph Göbbels, áróðursráðherra Hitlers sem æpti á einu flokksþingi nasista í þúsundáraríkinu: "Hitler ist Deutschland und Deutschland ist Hitler, Sieg Heil!" Menn voru ekkert með einhverja andstöðu á þeim fundum, en heldur ekki í Flokknum hér heima.
Davíð var jafnan fljótari en aðrir að greina aðalatriði frá aukaatriðum, kom sér alltaf beint að efninu og faldi aldrei skoðun sína í fræðilegan búning eða orðskrúð. Hann einhvern veginn talaði þannig að menn skildu hvað hann var að fara, hvort sem menn voru sammála honum eða ekki. Hann var orðheppnari en flestir aðrir og snöggur að slá vopnin úr höndum andstæðinga. Davíð hafði einfaldlega sterkari áru en aðrir stjórnmálamenn. Hörðustu fréttamenn bognuðu ætíð í návíst hans, viðtöl við Davíð voru alltaf drottningarviðtöl.
Davíð er einstakur snillingur, það verður bara að viðurkennast og ég bara nenni ekki að lasta hann núna, búinn að gera það nógu oft, nenni ekki að tala um skítlega eðlið, illgirnina eða hefnigirnina, hitt er mér af einhverjum ástæðum ofar í huga núna.
Já, ég er greinilega aðdáandi Davíðs hafi það farið framhjá einhverjum (þetta er ekki kaldhæðni), en hann hefur svo sem líka gert herfilega hluti ef út í það er farið. Og nú hefur Jóhanna fengið bréf, hún er hugsi yfir því sem og ríkisstjórnin öll. Nú munu lögfræðingar fara yfir málið og spá í það hvernig megi losna við Davíð án þess að gera allt vitlaust. En það er einmitt það sem hann vill, hann fer ekki hávaðalaust út úr bankanum og er sjálfur með her af lögfræðingum til að finna vankanta á öllu þessu máli. Davíð fer aldrei út úr bankanum nema þá lágréttur. Þúsundir fyrir utan seðalbankann hendandi eggjum og grjóti sem æpa "norður og niður með Davíð" mun ekki fá á hann. Aðrir mundu bogna og brotna, en ekki Davíð Oddsson af því að hann er einfaldlega sterkari en þeir. Davíð er mikilmenni og snillingur, að vísu brjálaður snillingur...
sunnudagur, 8. febrúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Með Davíð á heilanum? nei, ég nefni bara nafn hans 17 sinnum í þessum pistli og eru þá persónufornöfn sem vísa til hans ótalin. Renndi yfir þetta áðan í því skyni að fækka "davíðum" og setja fleiri pers.fornöfn í staðinn, en hætti við enda yrðu það helgispjöll. Áfram Davíð!
Skrifa ummæli