mánudagur, 29. september 2008

Bananalýðveldi Íslandsbasa

Einhver allra þreyttasta og útjaskaðasta frétt sem hugsast getur glymur á manni dag hvern og ekkert lát er á. Fréttin er svona: "Krónan aldrei lægri". Hvað getur gjaldmiðill haldið lengi áfram að falla? Hvenær bara deyr hann drottni sínum? Kannski þegar hann er orðinn minna virði en ekki neitt og krónuræfillinn okkar stefnir hraðbyri í það.

Það jafngildir landráðum í huga Íslandsbasa að minnast á evru og Evrópusamband. Það má ekki nefna þessi fyrirbæri frekar en snöru í hengds manns húsi. Þau reita Basa til reiði. Í staðinn sitjum við uppi með hann og þrefalt efnahagsklúður miðað við nágrannalönd okkar flest. Við höfum ónýtan gjaldmiðil sem verður æ minna virði (50% minna virði núna en fyrir nokkrum mánuðum), verðbólgu sem er margfalt hærri en í öllum nágrannalöndum okkar og vaxtaokur sem ekki á sér hliðstæðu í okkar heimshluta og þótt víðar væri leitað.

Þeir sem dirfast að nefna þann möguleika hvort okkur væri kannski betur borgið innan Evrópusambandsins þar sem líkur eru taldar á því að efnahagslíf okkar myndi aðlaga sig að því sem þar gerist, eru stimplaðir af Basa á Svörtuloftum sem lýðskrumarar sem eigi "mikla skömm og fyrirlitningu skilda".

Svokölluð "hagstjórnartæki" seðlabankans eru mikið grín og og trúi því ekki að menn þar á bæ haldi í alvöru að þau virki, þau nefnilega gera það ekki af einhverjum ástæðum. Stýrivextir eiga samkvæmt kenningunni að þrýsta verðbólgu niður og virðast gera það í útlöndum. En ekki hér. Háir stýrivextir hafa ekkert að segja í þessari baráttu, eru bara okkur öllum til bölvunar og aðalástæðan fyrir vaxtaokri bankanna. Alltaf þegar ábúðarfullir seðlabankastjórar tilkynna um hækkun stýrivaxta eru þeir á svipinn eins og nú megi vænta þess að verðbólgan fari niður. Nei, ekki hér. Svona efnahagslögmál virka ekki á Íslandi. Í staðinn fyrir að verðbólga lækki eins og hún á að gera samkvæmt kenningunni, hækkar hún í hvert skipti.

Það er kominn tími á að menn feisi þessa staðreynd og hina líka að Íslendingar kunna ekki neitt í efnahagsmálum. Þetta vita reyndar flestir, en Flokkurinn sem öllu ræður er í gíslingu þess manns sem helst má líkja við fyrrum leiðtoga Túrkmenistan, Túrkmenabasa sem allir voru svo hræddir við. Hér mun ekkert gerast meðan hann ræður ríkjum.

mánudagur, 22. september 2008

Pabbi

Pabbi bernskunnar. Stór og sterkur,

opinn faðmur og hálsakotið hlýtt.

Ró, ró og rugga og brýna gogg.

Fikt í skeggbroddum og eyra.

Bjargið trausta.

Pabbi æskunnar. Ferðalögin mörg,

biðin eftir pabba heim úr vinnunni.

Hann var sá sem aldrei fór

en alltaf var, fyrir mig og hina.

Angan af hefilspónum og pípu.

Pabbalykt. Hún var svo góð.

Pabbi unglingsáranna. Fótboltinn í sjónvarpinu á laugardögum,

lifðum okkur inn í leikinn.

Báðir, saman.

Traustur, aldrei lasinn

hann var sá sem aldrei veiktist,

fordæmin gaf og alltaf til staðar.

Peningi laumað í lófa, orðalaust.

Pabbi fullorðinsáranna. Þras um pólitík

og bjástur við bátinn sinn.

Pabbi í horninu sínu umvafinn barnabörnum

með kókómjólk.

Grúsk í bókum og landakortum,

kaffi og jólakaka á borði.

Hann var fyrir mig og mína og alla hina,

mildur og hlýr,

traustur alla tíð.

Í minningu pabba sem dó 10. september 2008

sunnudagur, 7. september 2008

Blucher lærir á bíl

  1. Konan hefur tekið upp á því á gamals aldri að læra á bíl. Hún verið að hóta því í mörg ár en ég hef aldrei tekið neitt mark á því og sannast sagna hef ég heldur ekki verið neitt sérstaklega hvetjandi til þess arna. Mér hefur nefnilega fundist það alveg nóg að það sé einn um það á heimilinu að slíta út bílnum. Neita því heldur ekki að nokkra umhyggju hef ég líka fyrir samborgurum mínum og fékk aldrei það reikningsdæmi til að ganga upp að Guðrún væri í umferðinni við stýrið svo sjónskert sem hún er eins og raunar ætt hennar öll og áður hefur verið minnst á hér á þessum vettvangi. Það er ekki bara sjónskekkjan sem ég hef áhyggjur af, heldur líka náttblindan og fjarsýnin. Held að glákan sé á næsta leiti. Hugaður maður hann Ingvar ökukennari að taka þetta ögrandi verkefni að sér.

    Fyrsti ökutíminn gekk kraftaverki næst. Mín hélt að hún myndi taka léttan rúnt með ökukennaranum og fengi bara smá fyrirlestur um stjórntæki bílsins og umferðina og þyrfti ekkert að keyra. En einhvers staðar í Þorpinu stöðvaði Ingvar bílinn og sagði henni að taka við. Konan fékk aðkenningu að taugaáfalli við þau tíðindi en gerði eins og henni var sagt. Það ótrúlega gerðist að frúin ók bílnum einhverjar götur og alla leið heim án nokkurra sýnilegra skemmda á faratækinu.

    Svo kom ökutími nr. tvö og ég sá að ökukennarinn bakkaði bílnum í stæðið. Það vissi ekki á gott sögðum við. Maðurinn ætlar að láta hana aka á brott og ég ákvað að fara ekki undir sæng heldur sýna henni þá samstöðu að fylgjast með þegar hún færi af stað. Það var nokkurt sjónarspil sem nú skal frá greina. Frau Blucher ákvað fyrir það fyrsta að vera á sokkaleistunum í þetta skiptið til að fá nánari tilfinningu fyrir ökutækinu og sennilega til að vega upp á móti sjóndeprunni. Hún settist upp í bílinn og ég stóð á svölunum og beið átekta, skimaði í allt aðra átt og þóttist ekkert kannast við þessa konu, horfði á hana svona útundan mér. Jæja, ætlar hún ekki að fara að drífa sig af stað? Það leið og beið og ég sá að hún skimaði um inn í bílnum, leit í baksýnisspegilinn, svo aftur fyrir sig, þá á hliðarspeglana, ofan í gólf og til hliðar, aftur ofan í gólf (leita að pedölunum?) og ekkert gerðist. Þetta var eins og flugmaður að setjast upp í Fokker að fara yfir tékklistann. Eftir óratíma hreyfðist bíllinn úr stað, svona hálfan metra og svo stopp! Nei, drífa sig, ég var kominn í spreng, en vildi ekki missa af þessu. Jæja, loks fór hann aftur af stað, löturhægt og stefndi sem leið lá upp bílastæðið í átt að Snægili. Ég hef aldrei séð bíl fara svona hægt og ef gömul kona með göngugrind hefði gengið við hlið bílsins hefði hún verið á undan. Í raun var þetta flott hjá minni konu, ég meina að geta keyrt svona lafhægt án þess að drepa í bílnum, það er kúnst geta ekki allir! Ökutúrinn gekk vonum framar að sögn, hún keyrði um Þorpið og fór jafnvel inn í hringtorg. Engan drap hún heldur og kom mér það skemmtilega á óvart. Drap á bílnum að vísu nokkrum sinnum, en það gerði ég sosum líka á sínum tíma. Og dáðadrengurinn Ingvar ætlar að halda áfram að kenna Frau Blucher og senn fæ ég æfingaleyfi. Þá munum rúnta um bæinn á Hundyai, hún við stýrið og ég sveittur og skelfingu lostinn sjálfsagt í farþegasætinu.

fimmtudagur, 4. september 2008

Mikið að gera

Það er fremur rólegt í bloggheimum hjá mér, en því meira að gera í mannheimum. Nýir áfangar og þeim fylgir mikil vinna. Engin gulrót alveg á næstunni, en um mánaðamótin næstu verður eitthvert þing og þá smá uppbrot á daglegum venjum í vinnunni. Það er gaman á þessum haustþingum framhaldsskólakennara. Erindin eru þó fremur leiðinleg og yfirleitt verð ég að berjast við að sofna ekki. Kýli þá bara vömbina af kaffi og vínarbrauði og bíð eftir hádegismat. Eftir hádegi taka við faggreinafundir og þeir eru fínir og gaman að hitta kollega sína úr öðrum skólum sem kenna sömu áfanga og maður sjálfur. Svo eru einhverjar málstofur og svona og þær eru misgóðar eins og gengur. En svo byrjar fjörið. Við söguspekingar höfum þann háttinn á að þjófstarta gleðinni og finnum okkur krá til að ræða, gáfulega að sjálfsögðu, um fagið og reyndar ýmislegt fleira. Svo er kvöldmatur og skemmtun fram eftir kvöldi (eða með öðrum orðum almennt fyllerí) og rútupartý að því loknu, hafi þingið verið annars staðar en hér í bæ.

Annars lítið að frétta, vinna og daglegt amstur ýmis konar á hug minn allan. Varð 48 um daginn og þakka hér með þeim sem mundu eftir mér og sendu sms ellegar hringdu eða komu færandi hendi. Guð blessi þá í bak og fyrir.