sunnudagur, 22. febrúar 2009

Það var ekki ég!

Ég sver það, það var ekki ég. Ég eitraði ekki fyrir Árna Johnsen.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Sérstakur saksóknari

Þessi geðþekki maður heitir Ólafur Þór Hauksson og var í janúar sl. skipaður í embætti Sérstaks saksóknara eins og það heitir. Hann og embættið með einum fjórum starfsmönnum á að fara ofan í saumana á efnhagshruninu og rannsaka og ljóstra upp um aðdraganda og orsakir þess og koma upp um refsiverða háttsemi í tengslum við það mál allt saman, hafi verið um slíkt að ræða.

Það er nú gott og blessað. En það er alveg makalaust að þetta skyldi ekki hafa verið gert fyrr en þrír og hálfur mánuður var liðinn frá hruninu. Þeir sem sök eiga á því hafa haft allan þennan tíma til að koma peningum undan í skattaskjól, tæta pappíra og gera hvaðeina til að hylja slóð sína. Svo finnst mér Ólafur þessi ansi rólegur í tíðinni. Hann var skipaður í embættið um miðjan janúar og tók til starfa 1. feb. og enn er ekki byrjað að yfirheyra.

Ólafur sagði í viðtali um daginn að þeir væru nú bara nýfluttir inn í eitthvert húsnæði og eru að koma sér fyrir. Hvar eigum við að hafa kaffikönnuna strákar? Það er gríðarlega mikilvægt að vanda vel til verka segir Ólafur og fyrst er að átta sig á umfangi málsins. Það mun taka einhverjar vikur að átta sig á því býst ég við. Ekki er hægt að handtaka menn nema fyrir liggi rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi sem mér finnst að Séstakur saksóknari efist um og leggur mikla áherslu á að fara sér hægt. Efnahagslífið hrundi hér bara, bankarnir fóru á hausinn og fólk missti sparifé sitt. Með öðrum orðum: Bankarnir með sína óhæfu stjórnendur rændu þúsundir Íslendinga, stórum hluta af ævisparnaði fólks og það á að telja manni trú um að ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi!? Þegar bandaríska risafyrirtækið Enron fór á hausinn voru stjórnendur þess leiddir út í handjárnum, enda höfðu þeir gerst sekir um hluti sem minna ansi mikið á þetta hrun bankakerfisins hér. Þar voru menn dæmdir fyrir ólögleg innherjaviskipti, brot á hlutafélagalögum, fjárdrátt og meinsæri.

Er ekki búið að benda á þetta allt saman hér? Vilhjálmur Bjarnason, var hann ekki að vinna mál fyrir dómi þar sem banki braut á honum og hundruðum öðrum hluthöfum hlutafélagalög? Erlendir bankar hafa upplýst um gríðarlega fjármagnsflutninga frá landinu vikurnar fyrir hrunið? Eignum stjórnenda var komið undan í skjól osfrv. Enginn hefur verið yfirheyrður, enginn hefur sætt ábyrgð, en þjóðin á að borga brúsann og verka upp skítinn eftir bankasóðana.
"Shit happens".

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Lífið er ósanngjarnt!

Allt sem mig langar verulega mikið til að gera er ýmist bannað, ósiðlegt eða fitandi.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Übermench

Það er engu logið upp á Davíð Oddsson, hvorki til lofs né lasts. Hann á það allt inni skuldlaust. Davíð svaraði bréfinu á þann eina hátt sem búast mátti við af honum; með klókindum og skætingi. Davíð er sterkasti pólitíkus sem Íslendingar hafa átt að Hriflu-Jónasi og Ólafi Thors meðtöldum. Enginn hefur átt jafn glæstan pólitískan feril og Davíð, svo einstakur var ferill hans, bæði í borginni og á Alþingi, að hann upplifði það aldrei að sitja í stjórnarandstöðu, hann var allan tímann leiðtogi og hann kann ekki annað en að vera sigurvegari og einvaldur.

Tök hans á flokknum voru (og eru?) slík að lýsa mætti þeim sem stalínskum að frátöldum "hreinsunum miklu". Davíð lét aldrei drepa neinn, en "bláu höndinni" beitti hann óspart á þá sárafáu sem voguðu sér að hafa aðrar skoðanir. Jón Magnússon, til skamms tíma frjálslyndur, veit ekki hvað hann er núna og Ólafur Magnússon fyrrv. borgarstjóri hafa báðir lýst því hvernig þeir voru settir út af sakramentinu í flokknum þegar þeir misstigu sig og viku út af flokkslínunni. Skoðanaskipti tíðkuðust heldur ekki árum saman í Sjálfstæðisflokknum, hann var bara til fyrir Davíð. Landsfundir voru bara ein hallelújasamkoma foringjanum til dýrðar og minntu á trúarsamkomur. Sjálfstæðisflokkurinnn var Davíð og Davíð var Sjálfstæðisflokkurinn. Og Sjálfstæðisflokkurinn átti Ísland. Nú er þetta farið að minna mig óþyrmilega á Joseph Göbbels, áróðursráðherra Hitlers sem æpti á einu flokksþingi nasista í þúsundáraríkinu: "Hitler ist Deutschland und Deutschland ist Hitler, Sieg Heil!" Menn voru ekkert með einhverja andstöðu á þeim fundum, en heldur ekki í Flokknum hér heima.

Davíð var jafnan fljótari en aðrir að greina aðalatriði frá aukaatriðum, kom sér alltaf beint að efninu og faldi aldrei skoðun sína í fræðilegan búning eða orðskrúð. Hann einhvern veginn talaði þannig að menn skildu hvað hann var að fara, hvort sem menn voru sammála honum eða ekki. Hann var orðheppnari en flestir aðrir og snöggur að slá vopnin úr höndum andstæðinga. Davíð hafði einfaldlega sterkari áru en aðrir stjórnmálamenn. Hörðustu fréttamenn bognuðu ætíð í návíst hans, viðtöl við Davíð voru alltaf drottningarviðtöl.

Davíð er einstakur snillingur, það verður bara að viðurkennast og ég bara nenni ekki að lasta hann núna, búinn að gera það nógu oft, nenni ekki að tala um skítlega eðlið, illgirnina eða hefnigirnina, hitt er mér af einhverjum ástæðum ofar í huga núna.

Já, ég er greinilega aðdáandi Davíðs hafi það farið framhjá einhverjum (þetta er ekki kaldhæðni), en hann hefur svo sem líka gert herfilega hluti ef út í það er farið. Og nú hefur Jóhanna fengið bréf, hún er hugsi yfir því sem og ríkisstjórnin öll. Nú munu lögfræðingar fara yfir málið og spá í það hvernig megi losna við Davíð án þess að gera allt vitlaust. En það er einmitt það sem hann vill, hann fer ekki hávaðalaust út úr bankanum og er sjálfur með her af lögfræðingum til að finna vankanta á öllu þessu máli. Davíð fer aldrei út úr bankanum nema þá lágréttur. Þúsundir fyrir utan seðalbankann hendandi eggjum og grjóti sem æpa "norður og niður með Davíð" mun ekki fá á hann. Aðrir mundu bogna og brotna, en ekki Davíð Oddsson af því að hann er einfaldlega sterkari en þeir. Davíð er mikilmenni og snillingur, að vísu brjálaður snillingur...

föstudagur, 6. febrúar 2009

Seðlabankinn

var einu sinni bara deild innan Landsbankans og það var greinilega ekki verra system en það sem nú er. Jón Baldvin talaði með fyrirlitningu um "blýantsnagarana" í seðlabankanum i den og var þá að vísa til þess að þar væri á ferðinni mikið bákn um lítið, þar hefðu menn ekki mikið að gera annað en að naga blýanta. Ég skal alveg viðurkenna það að lítið vit hef ég á hagfræði og peningamálum yfirleitt, enda get ég varla ímyndað mér leiðinlegra fyrirbæri og andlausara. Verst bara hvað þessir hlutir snerta mann mikið og allt líf okkar og gangur samfélagsins snýst um þessi sömu leiðinlegu og andlausu fyrirbæri.

Sjálfstæðisflokkurinn var með uppistand á Alþingi í dag. Einn brandarakallinn úr þeirra röðum sakaði ríkisstjórnina um að vera með "pólitísk afskipti af seðlabankanum". Ha, ha, ha, he, he, Væntanlega hefur fylgt með vanlætingarsvipur sem ég því miður missti af, en ég efast ekki um að leikurinn hafi verið góður. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið með pólitísk afskipti af seðlabankanum, alltaf hefur hann látið fagleg sjónarmið ráða för þegar hann hefur endurunnið ónothæfa pólitíkusa úr sínum röðum og sent í bankann eins og son sólarinnar, Kim il Oddsson. Mann með lögfræðimenntun en mjög líklega ekki hundsvit á hagtölum og peningum frekar en ég.

Svo fékk hann bréf frá heilagri Jóhönnu nú nýlega, það var nú ekkert ástarbréf og hún bíður eftir svari - og þjóðin öll í ofvæni

mánudagur, 2. febrúar 2009

Fífl

Þau eru mörg fíflin hér á landi. Eitt fíflið er Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Mogganum. Hún er í klúbbnum "elskar-að-hata-Ólaf-Ragnar-Grímsson". Það eru töluvert margir í þeim klúbbi og hafa verið meðlimir sumir hverjir alveg frá því að Ólafur kom heim úr námi í Englandi og fór að gera sig gildandi í samfélaginu. Það er nákvæmlega sama hvað Ólafur gerir eða segir, fyrsta boðorð er að færa það á versta veg, annað boðorð er að hnýta í hann og hreyta ónotum jafnvel þó að Ólafur hafi ekkert sagt, bara af því að hann er til.

Hannes Hólmsteinn hefur auðvitað lengi verið í þessu liði, Jón Steinar Gunnlaugsson, Davíð Oddsson, Halldór Blöndal og erkifíflið hann Ingvi Hrafn Jónsson sem er sjónvarpsstjóri á sinni ömurlegu og aumkunarverðu sjónvarpsstöð ÍNN. By the way, hvað þýðir þessi skammstöfun? Var þetta ekki einhvers konar brandari, tilvísun í CNN? Ég hef verið að horfa aðeins á þessa stöð og það er rannsóknarefni hvað Ingvi Hrafn er leiðinlegur náungi og liðið sem kemur í þáttinn eru eintómir já-bræður úr Flokknum sem guð af sinni miskunnsemi hefur komið í stjórnarandstöðu loks eftir 18 ár.

Í Silfri Egils gjammaði Agnes alls konar bull og þvælu um forsetann og gerði sig að fífli um leið. Hún er sár og svekkt yfir því að vinstri stjórn er komin á og elsku flokkurinn hennar farinn frá völdum. Forsetinn tók þátt í útrásarbullinu, hampaði auðkýfingum og af hverju mætir fólk ekki á Bessastaði og hrópar hann niður spyr hún? Já, bankahrunið var svo mikið Ólafi að kenna!! Agnes spurði líka í heimsku sinni og bræði af hverju forsetinn talaði ekki við fólkið í landinu? En þá var hún upplýst um það að Ólafur fór út um allt land og talaði við þúsundir Íslendinga á öllum aldri. Það gerði hann aðeins nokkrum vikum eftir hrunið, fór í fjölmarga skóla og stappaði stálinu í fólk, fór á fjölmarga vinnustaði og ræddi við fólk. Á einum morgni ræddi hann við á annað þúsund manns í tveimur heimsóknum hér á Akureyri. Í VMA og Giljaskóla. Í hinum fyrrnefnda hélt hann ekki bara drottningarræðu, heldur spjallaði við marga nemndur og kennara og var hinn alþýðlegasti!

Það er sumsé kjaftæði í kellingunni að forsetinn skipti sér ekki af venjulegu fólki, enginn fyrirrennara Ólafs í embætti hefur verið í jafnmiklu sambandi og hann við "fólkið í landinu" eins og það er kallað. Hann hefur að vísu sinnt auðmönnum og útrásarfyrirtækjum líka, greitt fyrir viðskiptasamningum o.s.frv., en það er ekki síst vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku samfélagi og það var ætlast til af forsetanum að hann kæmi fram fyrir Íslands hönd og leggði fyrirtækjum og útrásargæjunum lið. Hvað hefði verið sagt ef hann hefði gefið skít í þá hina sömu aðila? Ekki var forsetanum kunnugt um þær skýjaborgir sem menn voru að reisa og svikamyllurnar út um allt, hann var hafður að fífli eins og þjóðin öll.

Agnes hermdi svo eftir Ólafi og ætlaði kannski að vera fyndin, en eftirherman var léleg og vonandi lætur hún Jóhannesi Kristjánssyni og Pálma Gestssyni það eftir í framtíðinni.

Annað varðandi forsetann. Hann lagði línurnar fyrir stjórnarmyndunarviðræðurnar, sagði einfaldlega skoðun sína á því hver ættu að vera forgangsmál verðandi ríkisstjórnar. Það var gott hjá honum og í orðum hans endurrómuðu kröfur fólksins í landinu um umbætur, meira lýðræði, björgun heimila og atvinnulífs og stjórnlagaþing. Jú, forsetinn hafði nefnilega verið að fylgjast með (kannski legið í bloggsíðum daginn út og inn) og skynjaði nákvæmlega hvaða straumar lágu í loftinu. Hann var ekkert að skipa ríkisstjórninni væntanlegu fyrir eins og hann sjálfur tók fram, en þetta væru þau verkefni sem þyrfti að fara í. Það hefur enda gengið eftir. Þetta segist nýja stjórnin ætla að gera, nákvæmlega það sem Ólafur lagði til. Ábúðarfullir stjórnmálafræðingar sögðu "mjög óvenjulegt, fáheyrt, án fordæma" og supu hveljur eins og Baldur Þórhallsson. Aðrir eins og Gunnar Helgi sögðu þetta vissulega óvenjulegt, en auðvitað væri forsetinn í fullum rétti til að tjá þessar skoðanir sínar.

En Agnes, þessi leiðinda kelling, ætti að skammast sín, fyrir eftirhermuna og sjálfa sig.